Um RST Net

Sérhæft þjónustufyrirtæki í orkuiðnaði

RST Net veitir sérhæfða þjónustu sem tengist raf- og vélbúnaði í orkuiðnaði, þ.e. orkuverum, flutnings- og dreifikerfum auk stóriðju og í iðjuverum. RST Net tekur að sér hluta eða alla framkvæmd á uppsetningu á nýjum raf- og vélbúnaði í orkuiðnaði með traustum samstarfsaðilum. Fyrirtækið býður upp á mælingar og prófanir með sérhæfðum tækjabúnaði og veitir ráðgjöf um aðgerðir og lausnir til að auka rekstraröryggi, bæta nýtingu búnaðar og auka gæði raforkunotkunar.

RST Net hannar, smíðar og framleiðir búnað sérsniðinn fyrir raforkudreifingu, orku- og iðjuver auk umboðssölu á sérhæfðum búnaði, varahlutum og efni fyrir orkuver, flutnings- og dreifikerfi. Starfsemin fer fram í sérhönnuðu húsnæði fyrir fyrirtækið að Álfhellu 6 í Hafnarfirði.

Hjá fyrirtækinu starfar í dag u.þ.b. 30 manna fjölbreyttur hópur sérfræðinga á sviði raf- og vélbúnaðar.  Starfsmenn búa yfir sérþekkingu á ástandsmati, bilanagreiningu og viðhaldi á háspennubúnaði. Mikil áhersla er lögð á endur- og símenntun starfsmanna í þeim tilgangi að geta betur tekist á við sérhæfð verkefni á raforkusviði. Þar má sérstaklega nefna umboðs- og þjónustusamning fyrir þýska fyrirtækið Maschinenfabrik Reinhausen en starfsmenn RST Nets hafa sérhæft sig í upptöku þrepaskipta frá Maschinenfabrik Reinhausen.

Saga fyrirtækisins

RST Net ehf var stofnað þann 8. janúar 1998 af Þórarni Kristjáni Ólafssyni raforkuverkfræðingi og Arnhildi Ásdísi Kolbeins viðskiptafræðingi. Við stofnun félagsins var tilgangur þess að veita sérhæfða þjónustu í raforkuiðnaði, rafverktaka og hliðstæða starfsemi ásamt því að bjóða upp á varahlutaþjónustu fyrir orkufyrirtæki og sérhæfða ráðgjöf við þau. Til að byrja með sinnti fyrirtækið viðhalds- og viðgerðarþjónustu á raforkubúnaði fyrir Rarik. Þar var um að ræða dreifi- og aflspenna, aflrofa, almennt viðhald tengivirkja og rekstrarverkefni fyrir Kjósarveitu, ásamt öðrum verkefnum.

Fljótlega færðust meginverkefni fyrirtækisins í auknum mæli yfir í verktöku í stærri framkvæmdaverkefnum. Ber þar helst að nefna uppsetningu á raforkubúnaði fyrir Sultartangavirkjun 1999 auk uppsetningu á öllum rafbúnaði og niðursetningu á öllum vélbúnaði í Vatnsfellsvirkjun 2000-2002. Með aðkomu RST Nets að Vatnsfellsvirkjun varð sú meginbreyting í starfsemi fyrirtækisins að í stað þess að vera einungis í verkefnum á rafmagnssviði, bættist nú við öflugur hópur vélfræðinga, vélvirkja, suðumanna og annarra málmiðnaðarmanna, ásamt þeim tækjabúnaði sem til þurfti til að takast á við verkefnið. Í dag er fyrirtækið því jafnhæft til að taka að sér verkefni á sviði málmiðnaðar og rafiðnaðar. Á síðari árum hafa verkefni fyrir álverin þrjú aukist mjög og eru þau í dag stórir viðskipavinir RST Nets. Þar er um að ræða verkefni á öllum sviðum fyrirtækisins. Markhópurinn er eftir sem áður óbreyttur, þ.e. raforkuiðnaðurinn og stærri raforkunotendur.

Árið 2012 hóf fyrirtækið hönnun og undirbúning að dreifispennastöðvaframleiðslu á bilinu 50 kVA – 315 kVA og seldi fyrstu eintökin í árslok 2014.  Á vormánuðum 2017 gekk fyrirtækið frá fjögurra ára samningi við Rarik ohf að undangengnu útboði um framleiðslu á öllum dreifispennistöðvum fyrir þá af stærðinni 50 kVA, 100 kVA og 200 kVA. 

Aðstaða og tækjabúnaður

Starfsemi RST Nets fer fram í nýju sérhönnuðu húsnæði við Álfhellu 6, Hafnarfirði. Húsnæðið er meðal annars sérhannað fyrir upptekt á aflspennum, lofthæð er mikil og í húsnæðinu er nýr brúkrani með allt að 60 tonna lyftigetu.

Fyrirtækið hefur mikið af sérhæfðum tækja- og mælibúnaði m.a. 5 olíuhreinsitæki af mismunandi stærðum og gerðum, þ.m.t. nýtt og fullkomið Micafluid tæki sem hefur meiri afkastagetu en nokkuð annað olíuhreinistæki á landinu.

Gæði, öryggi og umhverfismál

Markmið fyrirtækisins er að vera fremst á sviði sérhæfðrar þjónustu og verktöku fyrir orkufyrirtæki og stærri raforkunotendur á Íslandi. RST Net leggur mikið upp úr öruggu starfsumhverfi og  forðast að skaða umhverfi og samfélag. Lögð er áhersla á virka gæðastjórnun og eftirlit. Hjá RST Neti er starfað eftir öryggis- og gæðakerfi.

Undanfarin ár hefur fyrirtækið kolefnisjafnað starfsemi sína með plöntun trjáa á Vestfjörðum. Orkuskipti bílaflotans eru einnig farin af stað og er það stefna fyrirtækisins að allir nýir bílar verði rafmagnsbílar. Í einstaka tilvikum þar sem aðgengi að raforku getur hindrað vinnu á verkstað (t.d. á afskekktum verkstað), verður nauðsynlegt að vera á bíl knúin áfram af öðrum orkugjöfum.

Grunngildi

  •  Heiðarleiki er mikils metinn hjá RST Neti þar sem starfsfólk kemur fram hvert við annað, viðskiptavini og birgja af heilindum og tryggir þannig gagnsæi í rekstri. 

  •  Þekking er kjarninn í þjónustu og framleiðslu RST Nets sem leitast við að viðhalda henni og auka og byggja upp reynslu með stöðugum umbótum.  

  •  Traust er grundvöllur að velgengni RST Nets og er einlægur ásetningur fyrirtækisins að bera fulla virðingu fyrir þörfum viðskiptavina með því að veita ávallt góða og örugga þjónustu.  

Gæðastefna

Gæðastefna RST Nets byggir á gildum og heildarstefnu fyrirtækisins.  

RST Net er leiðandi þjónustufyrirtæki við íslenska orkugeirann og tekst á við þjónustu-, framkvæmda- og framleiðsluverkefni fyrir fjölbreyttan hóp viðskiptavina. Samhliða framtíðarsýn og áframhaldandi vexti fyrirtækisins skuldbindur stjórn RST Nets sig til stöðugrar þróunar og framfara á virku gæðastjórnunarkerfi sem uppfyllir staðlakröfur ásamt viðeigandi lögum og reglugerðum. 

Stjórn RST Nets telur að framfarir í notkun og skilningi á ferlum muni draga úr sóun og tryggja framtíðarfarsæld rekstursins. Að sama skapi telur stjórnin að þróun fyrirtækjaminnis og gagnasafns þess til stuðnings tryggi samræmi í þróun og framleiðslu vöru og þjónustu til lengri tíma litið. 

Fyrirtækið setur sér gæðamarkmið og endurskoðar þau reglulega til að styðja við þessa stefnu og síbreytilegt starfsumhverfi fyrirtækisins. Markmiðin verða endurskoðuð á gæðaráðsfundum sem haldnir verða annan hvern mánuð að vottunarferlinu loknu. 

Stjórn RST Nets skuldbindur sig til að auka ánægju viðskiptavina með markvissri beitingu gæðastjórnunarkerfisins og viðhalda samhliða samfélagslega ábyrgri nálgun á vöruþróun, þjónustu og framleiðslu á öllum verkstöðum fyrirtækisins. 

Mannauðsstefna

Mannauðsstefna RST Nets byggir á gildum og stefnu fyrirtækisins. 

RST Net ræður og tekur á móti nýju starfsfólki á faglegum grundvelli. Tekinn er stöðufundur með nýju starfsfólki eftir þrjá mánuði í starfi og síðan ár hvert þar sem hlustað er á tillögur og leiðbeint um frammistöðu og starfsþróun. 

RST Net vinnur gagnvirkt að því að starfsfólk sé hæft, ánægt og metnaðarfullt. Fyrirtækið stuðlar að því að starfsfólk viðhaldi hárri öryggisvitund og efli starfshæfni sína og sérþekkingu með þjálfun og  endurmenntun.  

RST Net leggur áherslu á að aðbúnaður sé eins og best verður á kosið og kjör starfsmanna séu samkeppnishæf. 

RST Net leggur ríka áherslu á að starfsfólki líði vel í vinnunni og að gætt sé jafnvægis milli einkalífs og vinnu eftir bestu getu. Stuðlað er að jafnræði og jöfnum tækifærum alls starfsfólks óháð kyni, aldri, uppruna og annarri stöðu.  

RST Net samanstendur af öflugri liðsheild sem leggur rækt við jákvæða fyrirtækjamenningu þar sem heiðarleiki og traust skapa undirstöðurnar að daglegum rekstri fyrirtækisins. Gagnsæi og gott upplýsingaflæði gerir RST Net að eftirsóknarverðum vinnustað. 

Jafnlaunastefna og jafnréttisáætlun

Tilgangur og markmið
Jafnlaunakerfi RST Nets ehf byggir á staðli ÍST85:2012 á grundvelli 7. gr. laga nr. 150/2020 um jafnlaunavottun. Tilgangur og markmið jafnréttisstefnu RST Nets ehf er að stuðla að jafnrétti allra kynja í samræmi við lög um jafna stöðu og jafnan rétt þeirra og að fylgja þeirri meginreglu að greidd séu sambærileg laun fyrir sömu eða jafn verðmæt störf og að kjör séu ætíð ákveðin út frá sömu forsendum, þannig að enginn kynbundinn launamunur sé til staðar hjá RST Neti ehf. Jafnréttisstefnan var samþykkt af stjórn fyrirtækisins 03.11.2021 og skal endurskoða á þriggja ára fresti sbr. 5. gr. laganna. Áætlunin er aðgengileg á heimasíðu fyrirtækisins www.rst.is

Umfang
Stefnan nær til alls starfsfólks RST Nets ehf.

Jafnlaunastefna og jafnréttisáætlun RST Nets ehf
RST Net ehf leggur áherslu á jafnrétti kynjanna og að nýta til jafns styrkleika alls starfsfólks þannig að hæfileikar og færni alls mannauðs njóti sín sem best og er það skjalfest með stefnu þessari. Stefna RST Nets ehf er að vera vinnustaður þar sem allir eru metnir að verðleikum eftir hæfni og frammistöðu og að allir hafi jöfn tækifæri til þess að axla ábyrgð og sinna verkefnum óháð kyni.

 RST Net ehf fylgir lögum, reglum og samningum sem snerta jafnréttismál og gilda á hverjum tíma.

Meginmarkmið í jafnréttis- og jafnlaunamálum eru:

  • að öll kyn hafi sömu laun og kjör fyrir sömu eða jafn verðmæt störf,
  • að vera vinnustaður þar sem öll kyn eiga jafna möguleika bæði til starfs og til þróunar í starfi,
  • að vera vinnustaður þar sem leitast er við að jafna hlut kynja í ábyrgðar- og stjórnunarstöðum,
  • að vera vinnustaður þar sem öll kyn njóta sömu tækifæra til starfsþjálfunar og fræðslu,
  • að vera vinnustaður sem finnur leiðir til samræmingar á fjölskyldu- og atvinnulífi starfsfólks,
  • að vera vinnustaður þar sem engir fordómar og ekkert ofbeldi er liðið, hér undir fellur meðal annars kynbundið/kynferðislegt ofbeldi/áreiti.
  • að jafnlaunastefnan sé kynnt fyrir starfsmönnum og birt á heimasíðu fyrirtækisins
  • að launagreining sé framkvæmd reglulega, þar sem jafnverðmæt störf eru borin saman og helstu niðurstöður kynntar starfsfólki
  • að brugðist sé við ómálefnalegum launamun með stöðugum úrbótum

Innleiðing og rýni
Fjármálastjóri ber ábyrgð rekstri jafnlaunakerfisins, þ.e.skjalfestingu, innleiðingu, umbótum og framkvæmd ásamt því að sjá til þess að stefnunni og jafnlaunakerfinu í heild sé viðhaldið, það rýnt og endurskoðað. Þá ber fjármálastjóri ábyrgð á að rýni á árangri jafnlaunakerfisins sé framkvæmd árlega og að brugðist sé við ef þarf. fjármálastjóri ber ábyrgð á að öll gögn sem rýna á, þ.m.t. launagreining liggi fyrir þegar kemur að árlegri rýni.

Stjórnendur RST Nets ehf skuldbinda sig til að framfylgja og bera sameiginlega ábyrgð á að viðhalda stöðugum umbótum á öllum þáttum jafnlaunakerfisins.

Athugasemdum og ábendingum vegna jafnlaunakerfis fyrirtækisins skal komið á framfæri með því að smella HÉR.

Hafnarfirði 3. nóvember 2021

Kristján Þórarinsson
framkvæmdastjóri